Færsluflokkur: Bloggar

TVÍBURAR

Vel að verki staðið hjá Valgerði, fjóra stráka og allir afmæli sama dag, einhverntíma hefur verið fjör hjá þeim í afmælisveislum, ég og yngsti bróðir minn erum fæddir sama dag, og faðir okkar átti svo afmæli daginn eftir.
mbl.is Fjórir bræður fæddir sama dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SAMA SINNIS, SÍÐARI HLUTI

Þá er þeir Jón Ingjaldsson og ferðafélagi hans voru komnir á há Vaðlaheiði morguninn eftir með jarðneskar leifar Sigurjóns, stöldruðu þeir við með sleðann, tóku upp nestisbita og gáfu hestinum. Þegar þeir höfð leyst hestinn frá ækinu og voru hálfnaðir með nesti sitt, seig sleðinn af stað og rann til vesturáttar undan smáhalla á heiðinni. Jón snaraðist á eftir og þreif í sleðann, áður en illa fór, og sagði: Enn þá er sama sinnan í honum.

 


EKKI VANUR AÐ SLÓRA

Jón Ingjaldsson á Laxamýri, stundum kallaður Ingjaldur gamli á efri árum, var lengi vinnumaður á þeim stóra stað, trúr maður í starfi og stundaði laxakistuveiðar fyrir Sigurjón, síðan fyrir bræður, syni Sigurjóns, Egil og Jóhannes. Loks var hann hjá Jóni H. Þorbergssyni, alls milli 40 og 50 ár á Laxamýri. Sigurjón, sá annálaði athafnamaður, andaðist á Laxamýri veturinn 1918. Hann hafði valið sér legstað á Akureyri við hlið konu sinnar, sem dó á undan honum, Snjólaugar Þorvaldsdóttur. Jóni Ingjaldssyni var falið að flytja líkið inn eftir á sleða og fór annar maður með honum. Þeir gistu í Ljósavatnsskarði. Um kvöldið spyr húsráðandi: Hugsið þið ykkur að fara snemma í fyrramálið? Ætli hann vilji ekki komast af stað um fjögurleytið, svaraði Jón, hann er vanastur því.

seinni hluti síðar.


TIL HAMINGJU STRÁKAR

Það er þá orðið ljóst að við spilum í 2. deild á næsta ári og tími til kominn, og bæði liðin úr sama riðli fara upp, þar sem Hamrarnir/Vinir komu mjög á óvart með því að slá út Skallagrím, átti ekki von á þessu þar sem þeir voru frekar slakir í sumar þegar við lékum við þá þrjá leiki, en til hamingju Hamrar/Vinir.


mbl.is Ljóst hvaða lið fara upp í 2. deild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BRANDARI

Eftir að hafa drukkið ansi mikið ákvað barþjóninn að neita einum gestanna um meira áfengi. Maðurinn stóð upp en datt strax niður aftur. Eftir að hafa gert þetta nokkrum sinnum ákvað hann að skríða út í ferskt loft. Allt kom fyrir ekki og ekkert gekk hjá manninum, hann ákvað því að skríða heim til sín. Morguninn eftir spyr konan hans, hvað hann hafi verið að gera á barnum. Hann neitaði að hafa farið. Konan sagði þá: “Ég veit að þú varst á barnum, því barþjóninn hringdi og sagði að þú hefðir gleymt hjólastólnum aftur”.


GISTIHÚS Í GEITAFELLI

Hvern þann greiða er ferðamenn óska eftir og ég kann að geta af hendi látið sel ég hér eftir ákveðnu verði sem er þannig:

 Dagverður............................................................................................30 aurar

 Morgunverður með vökvun.............................................................. 30 aurar

 1 pt. Vökvun.........................................................................................12 aurar

1 pt. Nýmjólk.........................................................................................12 aurar

 Rúm yfir nótt........................................................................................10 aurar

 Kaffi bolli án brauðs...............................................................................8 aurar

 Kaffi bolli með brauði..........................................................................15 aurar

 Hús fyrir hest yfir nótt...........................................................................8 aurar

 1 fjórðungur af heyi.............................................................................30 aurar

 Fyrir land og geymslu á 1 hesti yfir dægur, eða sólarhring..............10 aurar

 Styttri tíma mest 4 klt. .........................................................................5 aurar

 

Athugagr.

     Þess vil ég geta að sumt af því er verðlagt er, er mjög óhægt að veita svo sem rúm, hey og fl.

 

                                                     Geitafelli 14. Febrúar  1886

                                                                                          Snorri Oddsson.

 

TVÆR SMÁ-SÖGUR

Þar sem ég hef fengið skilaboð frá bloggvini um það að hvort ég sé lífs eða liðinn, skal það tekið fram að ég er við þokkalega heilsu, þó svo ég hafi ekki bloggað mikið undanfarið, vegna mikillar vinnu og jafnframt að einhverju leyti leti, eyði ekki miklum tíma við tölvuna í sumar, nema þá til að lesa það sem bloggvinir mínir hafa að segja, skal það viðurkennast að ég hef ekki verið duglegur við að kvitta fyrir mig, en fylgist ágætlega með, en mestur þessi litli tími í tölvunni í sumar fer í að grúska í ættfræði, ætla nú að blogga tvær smá-sögur, svo bloggvinir mínir hafi eitthvað að moða úr.

 

Sagt er, að Júlíusi sýslumanni hafi verið boðið tollvarðarstarf á Húsavík, þegar hann varð að láta af embætti fyrir aldurssakir 1956. Er þetta satt? Eða ætlarðu að sinna þessu? var spurt. Nei. Sá, sem búinn er að vera skipstjóri eins lengi og ég, fer ekki út í eldhús til að gerast kokkur.

 

 Þegar Karl Sigtryggsson á Húsavík var ungur maður og stundum dálítið áreitinn, vatt hann sér eitt sinn að Aðaldælingum, sem voru að binda sláturklyfjar hjá sláturhúsi KÞ á Húsavík. Þar á meðal var Bjarni í Hellnaseli og stóð hann álútur yfir sviðapoka og batt yfir með snæri. Karl segir: Getið þið ekki, piltar góðir, hjálpað mér um nokkur kindarhöfuð? Aðaldælingum varð orðfall andartak, uns Bjarni hafði lokið við hnútinn yfir pokanum. Reis hann þá upp teinréttur, sneri sér að Karli og mælti: Ég ætla, maður minn, að þér nægi þitt eigið kindarhöfuð. Sneri þá Karl frá og átti ekki meira við Aðaldælinginn.


HOLD ER MOLD HVERJU SEM ÞAÐ KLÆÐIST

Hjá Benedikt Kristjánssyni prófasti á Grenjaðarstað var einhverju sinni unglingspiltur, Torfi að nafni. Dag einn á slætti voru þeir að þekja fjósheyið með blautu torfi. Prestur hringaði torfurnar og bar upp og rétti Torfa, sem tók á móti og þakti. Sjá þeir þá, að hópur velbúinna ferðamanna ríður í hlað í heimsókn til prestsins. Segir þá séra Benedikt: - Guð hjálpi mér, og hér er ég svona til fara! - Svona er ég líka, segir Torfi. - Er það nú ekki annað? segir prestur. - Og hold er mold, hverju sem það klæðist, svaraði pilturinn. Þetta svar þótti séra Benedikt ágætt.

VONT Á MEÐAN Á ÞVÍ STENDUR

Guðríður Jónsdóttir frá Tóttum í Kelduhverfi var meykona alla ævi, lengi vinnukona á Kálfaströnd, Reykjum, Geitafelli, Kraunastöðum og Múla. Síðast dvaldi hún á Sandi á níræðis aldri. Hún var frásagnakona og slyng í þeirri grein, mælsk og minnug. Þegar hún var 83 ára, lagði ungur maður fyrir hana þessa spurningu: Er það ekki örðugt hlutskipti, Guðríður, að pipra? O-nei, ekki er það, svaraði Guðríður um hæl, en það er að vísu vont á meðan á því stendur.

 


GLERBROTIÐ TALAR EINS OG FULL FLASKA

Jónas Jónsson frá Hriflu og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur áttu það til að gera athugasemdir hvor við annan. Einu sinni var Jónas að ræða um Sverri við annan mann og sagði: Sko, þó Sverrir sé bara eitt ómerkilegt glerbrot úti á sorphaug mannfélagsins, þá getur hann stundum talað, eins og hann væri full flaska.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 126619

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband