Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Gátur

1. Hvað hét hundur karls sem í afdölum bjó

    ég get hans í fyrsta nafni en get hans

    aldrei þó?

     

2. Margt er smátt í vettling manns gettu

    sans, þó þú getir í allan dag þá geturðu

    ekki hans?

    

3. Hvað er það sem fer í björg og brotnar

    ekki, fer í sjó og sekkur ekki, fer í eld

    og brennur ekki?

    

4. Ég er barinn, brennd og sundurrekinn

    fótum troðin út í æ, ómissandi á

    hverjum bæ?

Hér koma nokkrar gátur í viðbót úr bók afa míns, ritaðar 1938

Halli


Gömul sögn

Á bæ einum sat allt heimafólk inni í baðstofu á vetrarkvöldi og var að tala um

huldufólk. Sagði gömul kona, að ekki væri óhætt að kasta steini úti í loftið, nema

sagt væri áður: ,,Kasta ég steini, engum að meini. Vari sig allir. Verði enginn fyrir’’.

Ef þessa væri ekki gætt, gæti huldufólk orðið fyrir og mundi þá hefna sín.

Vinnumaður sat á rúmi móti dyrum og kroppaði af hnútu. Hann hæddist að huldu-

fólkstrúnni og spurði, hvort ekki væri sama ef kastað væri beini. Hún sagði það

væri sama. Sagði hann þá: ,,Kasta ég beini, öllum að meini. Vari sig enginn.

Verði allir fyrir’’. Nú kastaði hann hnútinni fram í dyrnar. Þar var myrkur og

enginn maður. Hnútunni var þó undir eins kastað inn aftur og var hún þá blóðug.

Lenti hún í öðru auganu á manninum. Marðist það, og var hann blindur á því

þaðan í frá.


Hestaat

  Síðasta hestaatið 

Flaustur nefnist fornbýli um 17 km. sunnan við Reyki.  Þar sést vel til mikilla tótta og garða, og telja munnmæli að verið hafi kirkjustaður og stórbýli með átján hurðir á járnum.  Átján hurða sagan gengur líka um Skarðssel sem stóð 7 km. norðar.  Sléttlendi og engjar eru um Flaustur, þar nefnast Flausturbalar með ánni.  Skammt þar utan við heitir Vindhólaskál í fjalli og Vindhólanes við ána.  Þar var háð síðasta hestavíg á Íslandi upp úr 1600 og sér enn garðinn um leiksvæðið.  Ástæður hestavígsins voru ósætti milli Sveins ríka á Illugastöðum og eyfirsks stórbónda.  Af Sveini ganga miklar sagnir og talið var að hann hafi átt 500 sauði þegar flest var, auk annars fjár.  Sveinn var talinn forspár því hann seldi alla sauði sína haust eitt fyrir fellisvetur.  Örlög Sveins urðu að hann drukknaði í kíl einum milli Illugastaða og Kotungsstaða sem síðan er nefndur Sveins kíll.  Talið er að Sveinn hafi falið fé í jörð í landi Illugastaða og er það þar enn fólgið.

(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 150 og 146)

 

 


Dauðavorið

Dauðavorið 

Bærinn Hjaltadalur var í dalsmynni Hjaltadals, sem gengur inn af Fnjóskadal, og var um langa hríð syðstur bæja í Fnjóskadal (allt þar til 1908 þegar hann fór í eyði).  Þetta var mikil jörð að landi og hafði nytjar inn um allan dal.  Talsvert undirlendi er um bæinn.  Hann stóð á háu fjalli vestan ár og í hættu fyrir snjóflóðum.  Árið 1737 féll þar snjóflóð á bæinn.  Þar fórust fjórir menn.  Húsfreyjan sem lá fyrir ofan bónda sinn í rúminu, marðist í hel, en bóndinn slapp ómeiddur og var hann og tveir aðrir grafnir lifandi úr rústunum.  Dauðavorið 1784 fluttust snemma vors að Hjaltadal Dínus Þorláksson og Þórlaug Oddsdóttir með allvænt bú og tíu eða tólf börn sín.  Seinna um vorið dóu öll börnin úr hungri og harðrétti, utan tvö, (Árni og Björg sem bæði urðu gömul); fjögur þeirra voru í einu flutt í kirkjuna á Illugastöðum til greftrunar.  Sex ær voru eftir af búi Dínusar og Þórlaugar sem gengu í túninu um sumarið og var sagt að grasið hefði verið svo mikið að aðeins sá á hrygg ánna upp úr því, svo gott var næsta sumar á eftir.

(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 152


Gátur

Hér koma svör við gátum frá 23.mars

1. Tveir bræður rífa hver af öðrum? svar: kambar

2. Fimm bræður klæðast í hvers annars föt? svar: prjónar

3. Fimm bræður fara inn um sömu dyr og fara í sitt hvert herbergi? svar: fingravettlingar

4. Á hverju endar dagurinn og byrjar nóttin? svar: tólf

5. Fullt hús matar en finnst hvergi dyr á? svar: egg

Halli


Þula

Geitaþula úr Bleiksmýrardal 

Reykjasel stóð í dalsmynni Bleiksmýrardals sem gengur inn af Fnjóskadal, nokkru sunnar en Reykir.  Reykjasel var byggt um 20 ára skeið nálægt 1800.  Þar bjuggu í elli sinni foreldrar Jórunnar konu Bjarna, er þá bjó á Reykjum.  Sel hefur verið þarna áður, en eigi síðan.  Bústofn var smár, tvær ær og tíu geitur.  Gamla konan las jafnan þulu þessa yfir geitunum sínum er þær fóru í haga:

Farið allar heilar í haga,

safnið þið mör í maga,

mjólk í spena, holdi á bein,

komið svo allar heilar heim.

(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 150)

 

Ættfræði

 

Smá ættfræðigrúsk hjá mér, vonandi vekur þetta einhverjar spurningar hjá

þeim er þetta lesa, og þá er bara að gera athugasemdir.

 

Helgi Ásmundsson f.1768, d.1855 var ættfaðir Skútustaðaættar, hann var

bróðir Einar Ásmundssonar f.1779, d.1842 sem var afi Elínborgar Jónsdóttur

sem var langamma mín, Helgi var þrígiftur og eignaðist 19 börn með þeim og

áttu a.m.k. 16 þeirra niðja,  samkvæmt mínu ættfræðigrúski er ég með skráða

niðja Helga Ásmundssonar rúmlega níuþúsund, konur Helga voru Kristín

Einarsdóttir f.1763, d.1797 og áttu þau tvö börn, önnur kona Helga var Þuríður

Árnadóttir f.1767, d.1821 og áttu þau sjö börn, þriðja kona Helga var Helga

Sigmundsdóttir f.1790, d.1857 og áttu þau tíu börn, Helgi varð ekki bóndi fyrr

en um 1798 á Skútustöðum er hann giftist Þuríði Árnadóttir annari konu sinni,

hún var systir Jóhannesar Árnasonar f.1771, d.1860 sem var afi Dýrleifar

sem var langamma mín, Jóhannes var bóndi á Grenivík og Grýtbakka og

var meðal annars forfaðir Kristjáns Eldjárn fyrrv. forseta, en aftur að Þuríði á

Skútustöðum, hún var áður gift Ara Ólafssyni bónda og smið á Skútustöðum f.1738,

d.1797, og áttu þau níu börn, Ari var áður giftur Maríu Aradóttur f.1740, d.1784,

þau Ari og María voru langalangafi og langalangamma Sigurbjargar

Þorláksdóttur f.1868, d.1952 sem var langamma mín, afi Maríu Aradóttur var

Þorleifur Skaftason prestur og prófastur í Múla í Aðaladal 1724-1748, Ari á

Skútustöðum var góður smiður, meðal annars smíðaði hann predikunarstól

1791 sem enn stendur í Þóroddsstaðakirkju í Kinn.

 

Halli


Saga

Jón hét bóndi, er bjó á Tréstöðum í Glæsibæjarsókn og var kallaður Jón ríki. Hann var hæglátur hversdagslega, en sinkur fram úr öllu hófi. Á konu sinni, er Guðrún hét, sat hann mjög og skammtaði henni úr hnefa til hversdags, taldi spaðbitana og tók smjörið af strokknum í hvert skipti, og allt eftir þessu, en hún var að náttúrufari greiðakona við þurfalinga. Loks kom að því, að dauði hennar nálgaðist og lagðist hún södd lífdaga. Þegar hún var aðfram komin og einmana bað hún um að kveikja ljós hjá sér, en þá sagði Jón ríki: ,,Ljós! Hvað hefur þú að gjöra við ljós, stúlka, dimmra verður á þér, stúlka!"

Halli


Gátur

Hér koma nokkrar gátur í viðbót.

1. Tveir bræður rífa hver af öðrum?

2. Fimm bræður klæðast í hvers annars föt?

3. Fimm bræður fara inn um sömu dyr og fara í sitt hvert herbergi?

4. Á hverju endar dagurinn og byrjar nóttin?

5. Fullt hús matar en finnst hvergi dyr á?

Endilega spreytið ykkur á gátunum, svör koma síðar.

Halli


Aðaldalur

Er breið sveit og fögur er gengur upp frá Skjálfanda. Að vestan takmarkar dalinn Skjálfandafljót en að austan Hvammsheiði. Nyrst í dalnum er hraun mikið. Norður í dalinn vestarlega gengur heiði er heitir Núpur, í dalnum eru vötn, syðst eru Vestmannavatn, Múlavatn og Sýrnesvatn, utar eru Sandsvatn og Miklavatn.

Svona er lýsing afa míns Ingólfs Indriðasonar f.1885 á Aðaldalnum frá 1938, en hann átti heima í Aðaldal í sjötíu og fimm ár frá 1893-1968.

Halli


Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

336 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband