Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

VERS

                        ,,Ó, að mín augun fengi

                        aftur þig með gleði’ að sjá,

                        mætti’ ég lifa svo lengi

                        lofa skyldi ég Guð minn þá.

                        Farðu’ nú úr

                        faðmi mínum.

                        Faðmi þig trúr

                        Guð í sínum.

                        Verndarmúr

                        á vegunum sé hann þínum’’.


SÉÐ FRAM

Skipstjóri nokkur átti fjóra syni. Þrír þeirra fetuðu í fótspor föður

síns og urðu sjómenn, en sá fjórði gekk menntaveginn.

Einu sinni var á það minnst við skipstjórann, að þrír sona hans

hefðu valið sér hættusaman atvinnuveg.

,,Ekki verður sjórinn þeim þremur að meini, en sá fjórði mun

greiða skuld okkar við Ægi karlinn’’, svaraði skipstjórinn.

Gekk það eftir, því að sjómennirnir urðu ellidauðir, en yngsti

bróðirinn, sá er menntaveginn gekk, drukknaði í millilandaferð

á besta aldri.

Þannig rættist enn hið fornkveðna, að eigi verður feigum forðað

né ófeigum í hel komið.

 

VÍSA

                        Þegar golan, blíð á brá,

                        bærist mér um kinnar,

                        finnst mér að ég finni þá

                        fingur vinu minnar.


ARGINTÆTA

Einu sinni var kerling svarkur mikill og orðhákur, sem gekk undir

aukanafninu Argintæta. Átti hú fáa vini, þar sem hún bar milli

fólks sögur venjulega hálflognar og kom sér úr húsi, hvað

eftir annað, og lauk því þannig, að enginn vildi neitt með hana

hafa að gera, og bjó hún ein síðustu ár sín.

Hafðist hún við í kofa á túni bróður síns, en ekki mátti hún

stíga fæti í bæinn, svo höfðu illyrði hennar um séð.

Eina mannveran, sem skipti sér af kerlingunni, var umkomulaus

stúlka, sem var gustukabarn bróður hennar. Kom hún oft til gömlu

konunnar og lét styggðaryrði hennar hvergi á sig fá.

Loks kom þar að Argintætu þótti vænt um stúlkuna. Sagði

hún henni sögur og bað fyrir henni og sagðist vita að hún yrði

gæfukona.

Þegar Argintæta dó fannst bréf í kistli hennar, þar sem hún arfleiddi

stúlkuna að eigum sínum, sem voru nokkrar, því hún hafði

ævinlega lifað spart og dregið saman það er hún mátti. Var arfur

þessi nægur til að kosta stúlkuna í skóla og hlaut hún síðan gott

gjaforð og lifði við mannhylli.


LAMB OG REFUR

Einu sinni var lítið lamb. Það var aðeins þriggja dægra

gamalt, en sprækt og forvitið, og forvitnin varð því til mesta

ógagns. Í staðinn fyrir að liggja rólegt við hlið móður sinnar, sem

svaf undir klettabarði, rölti það af stað til að elta lítinn fugl, sem

flögraði í hægðum sínum út móana.

Lambið hafði ekki lengi gengið, þegar það mætti skrýtnu dýri,

sem hafði langt og loðið skott og beittar tennur í opnum munni.

,,Nú ét ég þig’’, sagði dýrið. ,,Ég er refur og ég ét lítil lömb með

bestu lyst’’.

,,Bíddu heldur, góði refur’’, sagði lambið, ,,ég skal vísa þér á

miklu betri bráð. Ég er svo ungt lamb, að það tekur því ekki að

leggja mig til munns, en hér ofan við klettabarðið er vænt lamb,

sem nægir í kviðfylli fyrir þig.’’.

,,Sýndu mér það strax’’, sagði refurinn, sem var svangur og átti

ekki snefil af þolinmæði.

Lambið gekk með refnum upp á klettabarðið og jarmaði sárt um

leið og þangað kom. Hvasshyrndur hrútur stökk upp og réðst á

refinn og kom á hann lagi svo iðrin lágu úti.

,,Þetta var nú helst til stórt lamb’’, hugsaði refurinn, sem skreið

særður áleiðis heim til sín, en hann komst ekki langt, því að

hrúturinn elti hann og veitti honum annað högg, sem reið honum

að fullu.

,,Svona fer fyrir þeim, sem láta sér ekki nægja það, sem þeir hafa’’,

sagði lambið við sjálft sig og skokkaði ánægt til móður sinnar, sem

svaf og vissi ekkert hvað fram hafði farið.

 

Vísa

                        Glansar hlíð í gulum kjól,

                        glit er í himintjöldum.

                        Það er eins og sumarsól

                        sitji nú að völdum.

 

ARNARHJARTAÐ

Arnarmóðirinn var á leið heim til sín. Hún sveif á breiðum vængj-

unum og hvessti sjónir á öllu, sem neðan við hana var. Þetta var

vani hennar, en nú bar hún vænan lax í klónum, sem hún vissi

að kæmi sér vel, því að ungarnir hennar þrír voru sí soltnir og hún

var ein við að ná í björgina síðan bóndi hennar varð fyrir skoti

veiðimanns og lét lífið.

Ungarnir hennar voru brátt fleygir og þá yrði léttara fyrir hana,

því að þá gátu þeir sjálfir lært að veiða sér til matar. Hún herti

flugið og brátt var kletturinn hái framundan þar sem dyngja hennar

var undir efstu gnípunni.

En hvað var þetta. Hjarta hennar barðist ólmt í brjóstinu. Dyngjan

hennar var á bak og burt. Einhver hafði komið meðan hún var

í burtu og tekið hreiðrið og nú sást ekki urmull af því.

Hún flaug upp á klettinn, lagði frá sér laxinn og leit alls staðar

í kringum sig.

Ekkert sást. Það var búið að taka frá henni ungana hennar. Fyrst

var bóndinn skotinn og síðan afkvæmunum rænt.

Tárin runnu niður hart nef össunnar, sem hafði misst allt, sem

hún átti og hjarta hennar varð eins og steinn af sorg og hatri.

Loks flaug hún einmana burt og skildi nýveiddan laxinn eftir á

klettinum.

 
mbl.is Illa lítur út með arnarvarp nú í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækur maður

Fátækur maður réri á skipi með öðrum heilan vetur, en

dró engan fisk. Enda létu hinir hann ekkert hafa og

hæddu hann þar á ofan. Það umbar hann með ró. Á sumar-

daginn fyrsta kvað hann vísu þessa:

 

                        Ég hef róið allan vetur.

                        Einhvern tíma gengur betur.

                        Sæll og blessaður sankti Pétur!

                        sendu mér þyrskling, ef þú getur.

 

Þann dag dró hann fisk. Það var stóreflis þorskur, en

dauðhoraður. Hann fékk að halda honum. Slægði hann

fiskinn um kvöldið. Í maga hans fann hann gullstykki svo

stórt, að það var meira virði en vetrarafli hinna allur til

samans. Nú hættu þeir að hæða hann, því nú var hann allt

í einu orðinn þeirra auðugastur.

 

Draumsvipur aftekins manns

Einhverntíma fyrir löngu hafði valdsmaður, er Jón hét,

dæmt mann til dauða fyrir einhverja sök, er á hann var

borin og hann gat ekki hrundið af sér, svo gilt væri tekið.

Var dómnum fullnægt á ákveðnum degi. Nóttina næstu á

eftir dreymdi valdsmanninn, að hinn aftekni maður kom

á gluggann hjá rekkju hans og kvað vísu þessa:

 

                        Dómari’ Jón! Þú dæmdir mig.

                        Dómurinn þinn var skæður.

                        Dómarinn mun dæma þig,

                        sem dómunum öllum ræður.


Vísa

                        Gef mér, Drottinn! góða nótt,

                        svo gleymdum sútum hafni.

                        Svo skal blunda sætt og rótt

                        í signuðu Jesú nafni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

335 dagar til jóla

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband