Færsluflokkur: Bloggar

ARNARHJARTAÐ

Arnarmóðirinn var á leið heim til sín. Hún sveif á breiðum vængj-

unum og hvessti sjónir á öllu, sem neðan við hana var. Þetta var

vani hennar, en nú bar hún vænan lax í klónum, sem hún vissi

að kæmi sér vel, því að ungarnir hennar þrír voru sí soltnir og hún

var ein við að ná í björgina síðan bóndi hennar varð fyrir skoti

veiðimanns og lét lífið.

Ungarnir hennar voru brátt fleygir og þá yrði léttara fyrir hana,

því að þá gátu þeir sjálfir lært að veiða sér til matar. Hún herti

flugið og brátt var kletturinn hái framundan þar sem dyngja hennar

var undir efstu gnípunni.

En hvað var þetta. Hjarta hennar barðist ólmt í brjóstinu. Dyngjan

hennar var á bak og burt. Einhver hafði komið meðan hún var

í burtu og tekið hreiðrið og nú sást ekki urmull af því.

Hún flaug upp á klettinn, lagði frá sér laxinn og leit alls staðar

í kringum sig.

Ekkert sást. Það var búið að taka frá henni ungana hennar. Fyrst

var bóndinn skotinn og síðan afkvæmunum rænt.

Tárin runnu niður hart nef össunnar, sem hafði misst allt, sem

hún átti og hjarta hennar varð eins og steinn af sorg og hatri.

Loks flaug hún einmana burt og skildi nýveiddan laxinn eftir á

klettinum.

 
mbl.is Illa lítur út með arnarvarp nú í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækur maður

Fátækur maður réri á skipi með öðrum heilan vetur, en

dró engan fisk. Enda létu hinir hann ekkert hafa og

hæddu hann þar á ofan. Það umbar hann með ró. Á sumar-

daginn fyrsta kvað hann vísu þessa:

 

                        Ég hef róið allan vetur.

                        Einhvern tíma gengur betur.

                        Sæll og blessaður sankti Pétur!

                        sendu mér þyrskling, ef þú getur.

 

Þann dag dró hann fisk. Það var stóreflis þorskur, en

dauðhoraður. Hann fékk að halda honum. Slægði hann

fiskinn um kvöldið. Í maga hans fann hann gullstykki svo

stórt, að það var meira virði en vetrarafli hinna allur til

samans. Nú hættu þeir að hæða hann, því nú var hann allt

í einu orðinn þeirra auðugastur.

 

Draumsvipur aftekins manns

Einhverntíma fyrir löngu hafði valdsmaður, er Jón hét,

dæmt mann til dauða fyrir einhverja sök, er á hann var

borin og hann gat ekki hrundið af sér, svo gilt væri tekið.

Var dómnum fullnægt á ákveðnum degi. Nóttina næstu á

eftir dreymdi valdsmanninn, að hinn aftekni maður kom

á gluggann hjá rekkju hans og kvað vísu þessa:

 

                        Dómari’ Jón! Þú dæmdir mig.

                        Dómurinn þinn var skæður.

                        Dómarinn mun dæma þig,

                        sem dómunum öllum ræður.


Vísa

                        Gef mér, Drottinn! góða nótt,

                        svo gleymdum sútum hafni.

                        Svo skal blunda sætt og rótt

                        í signuðu Jesú nafni.


TRÚ

                        Vér þurfum trú á mátt og megin

                        á manndóm, framtíð, starfsins guð,

                        þurfum að hleypa hratt á veginn,

                        hætta við víl og eymdarsuð.

                        Þurfum að minnast margra nauða,

                        svo móður svelli drótt af því,

                        þurfum að gleyma gömlum dauða,

                        og glæsta framtíð seilast í.

 

VÍSA

                                     Til náttmála stutt er að stíga,

                                     við ströndina hvíslar hljótt

                                      í brúðar skartklæðum bárudís

                                      og býður þér - góða nótt.

 

LITLA FLUGAN

Hún kom semma sumars og settist á borðið hjá mér, þar sem ég

var að skrifa. Ég varð að taka strax eftir henni, því annars var

hún óþolinmóð og átti til að fljúga upp á blaðið og ganga yfir

orðin, sem ég skrifaði seinast, og blekið var tæpast þurrt á.

Ég var vanur að gefa henni smá brauðmola með smjörklípu á,

og það kunni flugan að meta. Hún settist á brauðmolann, skók

lappirnar og hristi vængina eins og aðalatriðið væri að mýkja

útlimina í hálfbráðnu smjörinu.

Þegar flugan var að leika sér á brauðmolunum, fór ég venjulega

að skrifa og fékk til þess næði nokkra stund. En svo kom flugan

allt í einu, og flaug í hringi kringum höfuðið á mér með reiðilegu

suði. Hún hefur haldið, að ég væri búinn að gleyma sér.

Smátt og smátt vöndumst við hvort öðru, ég og litla flugan, og

daginn, sem hún lá liðin í gluggakistunni hjá mér, gat ég ekki

skrifað neitt, því ég saknaði félagsskaparins, og fannst ég orðinn

einmana. Svona getur lítil fluga orðið milkils virði.

 

VÍSA

                                Undir nætur værðar-væng

                                velt ég út af svona.

                                Mér hefur reidda mjúka sæng

                                mín hin góða kona.

 

ÆTTFAÐIR OKKAR ERLU BLOGGVINKONU OG FJÖLDA ANNARA

Peter Christian Buch var fæddur 1723, d. 23.1.1784, hann var átján

ára gamall sem verslunarþjónn við einokunnarverslunina. Síðan varð

hann forstöðumaður verslunarinnar í Hammerfest í 35 ár, eða 1745-1779.

Því starfi gegndi hann með sóma og varð það honum til hins mesta vegsauka.

Peter hafði forustu um nýjungar í atvinnuháttum í Hammerfest, efldi

fiskveiðar og bætti hafnaraðstöðu. Hann hafði einnig mikinn áhuga á

náttúru lands og sjávar og átti í miklum bréfaskriftum við Vísindafélagið

í Þrándheimi um þau mál. Hann sá atvinnumöguleika í öllu mögulegu,

perluveiðum, ullariðnaði, æðarfugli, íshafsveiðum, hvítref og kolavinnslu.

Þessi áhugi náði til Íslands. Hann sendi 30 hreindýr til Íslands á vegum

stjórnarinnar. Hann vildi ekki móttaka greiðslu fyrir þessi dýr en fékk í

staðinn medalíu frá konungi fyrir vikið. Peter átti nefnilega eyju þá er

Sörey heitir, sem er skammt frá landi við Hammerfest. Hann gaf Íslendingum

hreindýrin úr stofni þessarar eyju hans, þau sem voru talin laus við

sjúkdóma. Þessi hreindýr munu vera einn fyrsti hreyndýrastofnin sem

hér tórði. Telja má með réttu að Peter hafi verið einskonar faðir Hammerfest

sem kaupstaðar. Í Hammerfest er enn altarisbók flauelsdregin og silfurslegin

sem hann og kona hans gáfu kirkjunni. Peter varð tollstjóri í Kristiansand

og síðar meir stjórnarerindreki. Stutt var hann þó í þeim embættum og dó

í janúar 1784. Var hann þá orðin vel efnaður og eftir hann voru tæpir

sjöþúsund ríkisdalir.

Kona Peters var Anna María Elísabet Kraft Buch f.1725, d. 25.3.1801,

ætt hennar er hálfþýsk að uppruna og skeytir sig með fjölda frægra presta,

listamanna og vísindamanna. Má rekja hana aftur í aldir. María eins og hún

var kölluð lifði mann sinn lengi eða í 17 ár. Eftir fráfall hans undi hún ekki

fyrir sunnan. Hún tók saman föggur sínar og stefndi norður á Finnmörku,

til fornra heimabyggða, þótt leiðin væri hálfs annars þúsund kílómetra löng.

Hún stoppaði í Hammerfest og byggði sér veglegt slot við Ryperfjörð fyrir

það fé sem bóndi eftirlét henni. Bar það heitið Maríuborg.

Lést hún í höll sinni 1801.

Þau hjón voru foreldrar Nikulásar Buch f.1755, d.1805, sem var assistents

við Húsavíkurverslunina, tengdasonur Björns Thorlacíus kaupmanns þar.

Hann var meðal annars forfaðir minn og rúmlega níuþúsund annara

Íslendinga a.m.k. sem ég hef skráð hjá mér undanfarinn átta ár.

 

Hallgrímur Óli Helgason

 

SEXTÁN POTTAR

                           Í lífi og dauða meðan má

                           munninn bera að stútnum,

                           í sorg og gleði sýp ég á

                           sextán potta kútnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

96 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband