Færsluflokkur: Bloggar

VÍSA

                        Ég vildi, að ég fengi að vera strá

                        og visna í skónum þínum.

                        Því léttast gengirðu eflaust á

                        yfirsjónum mínum.

 

VÍSA

                        Þegar nótt um foldu fer,

                        fallin blunds í arma,

                        draums á himni sál mín sér

                        sólir þinna hvarma.

 

HÚSABAKKI

Húsabakki í Aðaldal, bærinn stendur á láglendinu vestan

Garðsnúps. Allt land jarðarinnar hefur á fyrri öldum verið eyja í

Skjálfandafljóti. Nú afmarkast landið af fljótinu að vestan, gömlum

þornuðum farvegi að sunnan og Húsabakkakíl að austan og norðan.

Sandbakkar þurrir eru með fljótinu og kílnum, að öðru leyti er landið

mest mýrlent og víða mjög vott. Margar jarðir í Aðaldal sóttu fyrrum

heyskap í Húsabakka, þegar spretta brást á harðvelli.

Nú er engjaheyskapur þar að mestu niður lagður. Þegar stórflóð koma

í Skjálfandafljót, fer láglendið mest allt undir vatn, og verður þá ekki

komist að bænum nema á báti. Húsabakki var eign Grenjaðarstaðakirkju

og talinn fyrst byggður 1670. Árið 1926 fluttust að Húsabakka hjónin

Ingólfur Indriðason f.1885 og kona hans María Bergvinsdóttir f.1888,

foreldrar núverandi ábúenda. Áhöfn 1960: 18 nautgr., 72 kindur, 1 hross.

Íbúðarhús, ein hæð og geymsluloft, 84 fm. byggt 1942. Fjós fyrir 12 kýr,

fjárhús fyrir 100 kindur, hlaða fyrir 380 h., votheystóft fyrir 60 h., allt

úr steinsteypu.

 Heimild: Byggðir & bú 1960

ALÞINGISMENN

                    Elsta þing í heimi er þjóðar sæmd og heiður

                    og þeir sem fá þar sæti í mannvirðingum hækka,

                    en samt er ekki að leyna, að ég er dáldið leiður

                    á lognmollunni þeirra og held þeim megi fækka.

VERS

                        ,,Ó, að mín augun fengi

                        aftur þig með gleði’ að sjá,

                        mætti’ ég lifa svo lengi

                        lofa skyldi ég Guð minn þá.

                        Farðu’ nú úr

                        faðmi mínum.

                        Faðmi þig trúr

                        Guð í sínum.

                        Verndarmúr

                        á vegunum sé hann þínum’’.


SÉÐ FRAM

Skipstjóri nokkur átti fjóra syni. Þrír þeirra fetuðu í fótspor föður

síns og urðu sjómenn, en sá fjórði gekk menntaveginn.

Einu sinni var á það minnst við skipstjórann, að þrír sona hans

hefðu valið sér hættusaman atvinnuveg.

,,Ekki verður sjórinn þeim þremur að meini, en sá fjórði mun

greiða skuld okkar við Ægi karlinn’’, svaraði skipstjórinn.

Gekk það eftir, því að sjómennirnir urðu ellidauðir, en yngsti

bróðirinn, sá er menntaveginn gekk, drukknaði í millilandaferð

á besta aldri.

Þannig rættist enn hið fornkveðna, að eigi verður feigum forðað

né ófeigum í hel komið.

 

VÍSA

                        Þegar golan, blíð á brá,

                        bærist mér um kinnar,

                        finnst mér að ég finni þá

                        fingur vinu minnar.


ARGINTÆTA

Einu sinni var kerling svarkur mikill og orðhákur, sem gekk undir

aukanafninu Argintæta. Átti hú fáa vini, þar sem hún bar milli

fólks sögur venjulega hálflognar og kom sér úr húsi, hvað

eftir annað, og lauk því þannig, að enginn vildi neitt með hana

hafa að gera, og bjó hún ein síðustu ár sín.

Hafðist hún við í kofa á túni bróður síns, en ekki mátti hún

stíga fæti í bæinn, svo höfðu illyrði hennar um séð.

Eina mannveran, sem skipti sér af kerlingunni, var umkomulaus

stúlka, sem var gustukabarn bróður hennar. Kom hún oft til gömlu

konunnar og lét styggðaryrði hennar hvergi á sig fá.

Loks kom þar að Argintætu þótti vænt um stúlkuna. Sagði

hún henni sögur og bað fyrir henni og sagðist vita að hún yrði

gæfukona.

Þegar Argintæta dó fannst bréf í kistli hennar, þar sem hún arfleiddi

stúlkuna að eigum sínum, sem voru nokkrar, því hún hafði

ævinlega lifað spart og dregið saman það er hún mátti. Var arfur

þessi nægur til að kosta stúlkuna í skóla og hlaut hún síðan gott

gjaforð og lifði við mannhylli.


LAMB OG REFUR

Einu sinni var lítið lamb. Það var aðeins þriggja dægra

gamalt, en sprækt og forvitið, og forvitnin varð því til mesta

ógagns. Í staðinn fyrir að liggja rólegt við hlið móður sinnar, sem

svaf undir klettabarði, rölti það af stað til að elta lítinn fugl, sem

flögraði í hægðum sínum út móana.

Lambið hafði ekki lengi gengið, þegar það mætti skrýtnu dýri,

sem hafði langt og loðið skott og beittar tennur í opnum munni.

,,Nú ét ég þig’’, sagði dýrið. ,,Ég er refur og ég ét lítil lömb með

bestu lyst’’.

,,Bíddu heldur, góði refur’’, sagði lambið, ,,ég skal vísa þér á

miklu betri bráð. Ég er svo ungt lamb, að það tekur því ekki að

leggja mig til munns, en hér ofan við klettabarðið er vænt lamb,

sem nægir í kviðfylli fyrir þig.’’.

,,Sýndu mér það strax’’, sagði refurinn, sem var svangur og átti

ekki snefil af þolinmæði.

Lambið gekk með refnum upp á klettabarðið og jarmaði sárt um

leið og þangað kom. Hvasshyrndur hrútur stökk upp og réðst á

refinn og kom á hann lagi svo iðrin lágu úti.

,,Þetta var nú helst til stórt lamb’’, hugsaði refurinn, sem skreið

særður áleiðis heim til sín, en hann komst ekki langt, því að

hrúturinn elti hann og veitti honum annað högg, sem reið honum

að fullu.

,,Svona fer fyrir þeim, sem láta sér ekki nægja það, sem þeir hafa’’,

sagði lambið við sjálft sig og skokkaði ánægt til móður sinnar, sem

svaf og vissi ekkert hvað fram hafði farið.

 

Vísa

                        Glansar hlíð í gulum kjól,

                        glit er í himintjöldum.

                        Það er eins og sumarsól

                        sitji nú að völdum.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

96 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband