Færsluflokkur: Bloggar

Herra B

                    ,,Til þín, háttvirti herra B  

                    hef ég lyft skyrbón minni,

                    alríkan þig að öllu sé,

                    ásjá treystandi þinni,

                    láttu mig ekki líða nauð,

                    lífs meðan þarf ég daglegt brauð,

                    sem fátækur fagna kynni.’’

  

Vísa

Á alþingi árið 1889 var fremur róstusamt. Voru þar samankomnir

margir af helstu hugsjónagæðingum þjóðarinnar, einmitt þegar

,,Valtýskan’’ átti að gera innreið sína í landið. Á þeim árum voru

nokkrir af þingmönnum hagorðir og sumir jafnvel bestu skáld.

Urðu þá í hnippingunum til nokkrar vísur, heppilega hugsaðar

og gerðar, og er þessi ein af þeim.

 

                                 ,,Ísfirðingar monta mest

                                 og miða allt við Skúla,

                                 en Þingeyingar þæfa best,

                                 og þar er Jón í Múla.’’


Vorvísur

                

                    Eftir gjólu orra-þing

                    út á hól er veisla,

                    börn á róli hlaupa í hring,

                    hlæja  í sólargeisla.

 

                    Sunnanvindur syngur ljóð,

                    sólskinsmyndir tekur,

                    þúsund linda unaðsóð

                    upp um rinda vekur.


HESTUR/HJÓL

Bróðir minn hafði eignast hið forláta reiðhjól þegar hann var

um það bil fimmtán ára, ég var þá átta ára og hafði ég gaman

af því að fá að prófa það helst er hann skrapp frá, eitt sinn

hafði hann orðið sér úti um hraðamælir á reiðhjólið, og var að

vita hvað hann kæmi því hratt, mælirinn var skráður í sjötíu

að mig minnir, hann fór í hinar ýmsu brekkur og reyndi að

koma því sem hraðast, ekki fannst honum að hann kæmist

nógu hratt, og datt þá í hug að ég færi á hjólið og hann á Jarp

gamla, setti hann svo band utan um sig og batt í hjólið og átti

ég að fylgjast vel með hraðamælinum, síðan var þeyst á stað og

upp á þjóðveginn, þar var ekki mikil umferð og þetta var malar-

vegur, en harður þó á miðjunni en lausamöl í köntum, Jarpi

leist nú ekkert á þessi læti sem fylgdu honum eftir og jók hann

frekar hraðann heldur en hitt, leist mér nú ekkert á blikuna er

við vorum kominn á mikla siglingu og fór eitthvað að láta heyra

í mér og reyna að fá bróðir minn til að hægja á, en óhljóðin voru

bara til þess að Jarpur jók bara ferðina, og þar kom að því að

ég lenti út í lausmöl og fór í loftköstum út í móa og endaði á

girðingu sem var við veginn,  allur lemstraður en þó óbrotinn,

sem var afar sjaldgæft hjá mér á þessum árum þar sem ég var

alltaf að brjóta mig, en það er efni í fleiri sögur, loksins tókst

honum að stoppa Jarp og sneru þeir við til að athuga með mig

að ég hélt, það fyrsta sem bróðir minn spurði var, hvað fór

mælirinn hátt, ég umlaði eitthvað og sagðist ekki hafa tekið

eftir því, hva drengur varstu ekki að horfa á mælirinn, við

verðum þá bara að prófa aftur á heimleiðinni.


VAR STÍNA BETRI?

Á árunum fyrir seinna stríðið höfðu efnahjón í Reykjavík

unga og lögulega vinnukonu, sem Kristín hét, í daglegu tali

nefnd Stína. Var Stína léttlynd og skemmtileg og þótti hús-

freyju nóg um þá eftirtekt, sem hún vakti hjá húsbóndanum.

Svo háttaði til að Stína svaf í herbergi uppi á rislofti, en stigi

upp lá framhjá forstofuhurð íbúðar hjónanna, sem var á efstu

hæð. Ekki var annað herbergi í risinu.

Stuttu eftir að Stína kom í vistina, fór húsbóndi hennar að vinna

aukavinnu á kvöldin, en hann var skrifstofustjóri hjá ríkisfyrirtæki.

Um líkt leyti fór húsfreyja að taka eftir því, að nokkru eftir að Stína

gekk til náða upp í herbergi sitt, heyrðist þungt fótatak í stiganum

upp og var þar greinilega þungstígur karlmaður á ferð. Grunaði

hún fljótt bónda sinn einkum þar sem hún þóttist verða þess vör,

að hann kæmi fljótlega heim eftir að gestur Stínu hafði heyrst

ganga  niður stigann og út úr húsinu.

Reynt hafði frúin að sitja fyrir gestinum, en það hafði ekki borið

árangur, því að hún hafði misst af honum, er hún þurfti að svara

síma inni hjá sér.

Leiddist henni líka stöður í forstofunni og hugði nú betra ráð.

Keypti hún aðgöngumiða í bíó og gaf Stínu þá, tíu mínútum fyrir

níu eitt kvöldið, en sýningin átti að hefjast klukkan níu. Stína

færðist undan að fara, sem hún gat, en húsfreyja beitti hana

hótunum og þorði hún ekki annað en að fara.

Þá varð frúin handfljót að koma sér upp í herbergi Stínu, afklæddist

og fór í rúm hennar, slökkti ljósin og beið átekta í ofvæni. Þóttist

hún nú leika hæfilega á eiginmanninn, sem leitað hefði forboðinna

stunda hjá Stínu að undanförnu.

Tíminn leið og konan lá í notalegu kvöldmyrkri febrúarmánaðarins,

en skyndilega heyrðist fótatakið þunga úr stiganum. Húsfreyja

bærði ekki á sér, en komumaður hratt upp hurð, lokaði á eftir sér og

afklæddist í snatri. Smokraði sér síðan liðlega undir sængurfötin hjá

húsfreyju, og sýndi henni ódeigilega karlmennsku sína, en hún tók

hressilega á móti. Þegar kyrrðist af afloknum sængurstorminum,

seildist frúin í slökkvara á borðlampanum og sagði um leið:,, Var

Stína betri?’’ Ekki varð henni vel við er hún sá ókunnan mann við

hlið sér, en þar var kominn vinur Stínu, blásaklaus stöðvarbílstjóri,

en húsfreyja hafði tortryggt mann sinn að ástæðulausu. Varð henni

því fyrir að skýra málið fyrir bílstjóranum og semja við hann um að

halda leyndum kvöldfundi þeirra.

Lét hún Stínu síðan í friði með bílstjórann.

    

HORFT UM ÖXL

,,Oft getur verið gott að staldra við og horfa um öxl

 á lífsgöngunni, þá sér maður betur hvort leiðin fram-

undan er rétt valin’’, sagði gamall maður.

,, Unga fólkinu hættir við að hugsa um það eitt að gana

áfram, en athuga ekki að hvert skref er undanfari þess

næsta’’, hélt hann áfram. ,, Því ættu menn við og við

að gefa sér stund til að hyggja að því liðna, þá verður

það sem er og verður reist á tryggum grunni’’, sagði

hann að lokum.

 

RIST NIÐUR ÚR

Hjón nokkur, sem bjuggu á bæ nyrðra voru lítt þokkuð,

karlinn þótti fúllyndur en kerlingin mesti svarkur. Barði

hún á bónda sínum ef henni bauð svo að horfa, en hann

hefndi sín með því að ansa henni ekki svo dögum skipti.

Ekki voru þau hjúasæl, en þó fengu þau eitt haust vinnu-

mann langt að kominn. Var sá vel að manni og undi sér

brátt illa vegna ósamkomulags húsbændanna. Tók hann

sig til eitt sinn er þau voru öll á engjum og risti niður úr

kerlingunni. Var það gert þannig, að öll föt hennar voru

skorin frá hálsmáli niður á þjó og sá ekki far eftir hnífinn

á baki hennar. Þótti slíkt þjóðráð við skapvarga.

Bóndinn horfði  á aðfarir vinnumanns og hafðist ekki að

en glotti kalt. Sneri vinnumaður þá að honum og sagðist

skyldi taka hann enn verra taki en húsfreyjuna ef hann

bætti ekki ráð sitt og væri sér ósárt um að fara og ráða sig

annars staðar. Tók bóndi þessu vel og kvað óþarft að hann

færi og húsfreyja varð eftir þetta miklu spakari. Er ekki

getið annars en þeim hafi vel fallið við vinnumann sinn,

sem var hjá þeim í mörg ár eftir þetta.


Staka

Svo er þessi staka, mun hún vera eftir Jón Kolbeinsson

f. um 1705, var bóndi víða í Þingeyjarsýslu og er margt

manna og kvenna komið frá honum, einhverju sinni var

hent gaman að því, að hann léti sér títt um að kenna

börn sín við Krist, en þann veg hétu fimm börn hans.

Á hann að hafa varpað eftirfarandi stöku af því tilefni.

 

                  ,,Mér ei þykir minnkun stór,

                  menn þó gjöri að gamni sín.

                  Í höfuð á Kristi heldur en Þór

                  heita læt ég börnin mín.’’


Vísa

Kristján Vigfússon bóndi á Finnsstöðum í Kinn var

greindur og liðlega hagmæltur, en stundum gætti

kerskni í kveðskap hans. Í brúðkaupi Guðrúnar

dóttur hans var á hann yrt og hann beðinn að skemmta

gestum. Þá varð honum að orði:

 

                ,,Ég kann til þess ekki hót

                orðin rétt að hneigja.

                Þegar ég kem á mannamót

                mér er sæmst að þegja.’’

 

ÞAR LÉK ÉG Á ÞIG, LAGSI

 

Þorpsbúi nokkur hafði fengið magasár og verið ráðlagt af

lækni að borða hafragraut þunnan á hverjum morgni. Ekki

var honum læknisráðið ljúft, því að verri mat en hafragraut

vissi hann ekki.

Tók hann því það til bragðs að láta fulla vínflösku standa opna

við hlið grautardisksins og gladdi hugann við væntanlegar teygar

af flöskunni, þegar grauturinn væri búinn.

Loks lauk hann grautnum, tók flöskuna, stakk tappanum í og

setti hana inn í skáp og sagði sigri hrósandi við sjálfan sig:,,Þar

lék ég á þig lagsi’’. Þennan leik viðhafði hann uns magasárið var

gróið og hann mátti aftur njóta þess, sem flaskan geymdi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

96 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband