Færsluflokkur: Bloggar

BYLTA

Bróðir minn hefur verið að horfa á vestra mynd, hugsaði ég þegar

honum datt það snjallræði í hug að gera eins og aðalkallarnir voru

vanir að gera í bíómyndunum, að stökkva ofan af þaki eða úr glugga

og hesturinn þeirra beið tilbúinn, og hægt var að þeysa af stað frá yfir-

vofandi vá eða byssukúlum óvinarins, nú átti ég að fara upp á þak og

hann myndi halda í hestinn, ég átti að hitta á bak, hann myndi slá í

hestinn og ég þeysa á stað, alveg eins og bíómyndinni, mér leist nú

ekki of vel á þetta, skil það nú ekki, þar sem ég var yfirleitt til í allt,

svo úr varð að ég fór upp á efri hæðina og út í glugga og þaðan skyldi

stokkið á hestinn, síðan var allt gert klárt, ég miðaði út hestinn og lét

mig síðan vaða, bróðir minn sló í hestinn, hann prjónaði og þeysti af

stað, ég lenti aftast á honum, þar sem rauk af stað of snemma, ég greip

í taglið og hélt fast,  sveiflaðist einhverja metra út í loftið og lenti

síðan frekar illa rispaður og marinn, og að sjálfsögðu með brotna löpp,

þá var ekkert annað að gera en að gera Gunnu gömlu klára og keyra

stráknum á Húsavík og fá Daníel lækni til gera löppina klára fyrir

næsta ævintýri.


BYLTA

Þegar þessi saga gerist var ég sjö ára að mig minnir. Upp á efri

hæðina heima var stigi breiður en ekki mjög brattur, gerði ég

mér það að leik að fara öfugur niður stigann á mikilli siglingu,

það er að segja með hendurnar á undan, varð úr oft mikil bylta

og marblettir, ekki brotnaði ég þó við þessar aðfarir, en seinna

fór illa fyrir mér er ég stökk úr stiganum úr þriðju efstu tröppu

og niður í eldhúsið, hafði gert það að leik að hlaupa niður stigann

og stökkva úr þriðju, fjórðu og fimmtu tröppu neðanfrá þar sem

ekkert handrið var á stiganum. Einn daginn kom ég hlaupandi og

úr þriðju efstu tröppu eins og áður sagði lét ég mig vaða niður og

lenti með miklum látum rétt við endan á eldhúsborðinu,

kenndi ég eymsla í annari löppinni og var eitthvað

haltur, en gleymdi því fljótlega og fór að leika mér eitthvað,

en frekar dasaður, þetta var á þorláksmessudag,

og nóg að gera á stóru heimili, síðan líður tíminn og morgunin eftir

aðfangadag leist móður minni ekki á löppina á stráknum, hún var

farinn að bólgna mikið og gat ég ekki stigið í hana, nú þurfti faðir

minn að fara að gera Gunnu klára, en svo kallaðist heimilisbíllin

sem var gamall Willys ’42 að mig minnir og átti nú að fara með

strákinn á sjúkrahús og láta líta á löppina, ekki gekk sú ferð mjög

vel, allavega sauð á Gunnu einu sinni eða tvisar, en á sjúkrahúsið

komumst við fyrir rest og tók Daníel læknir á móti mér, ekki í

fyrsta skiptið og setti mig í gips, en það kom í ljós við myndatöku

að bein var brotið í löppinni, var ég nú eitthvað spakari eftir þessa

byltu amk. fram yfir áramótin.


HLÖÐUKÁLFUR

Kálfar, sem hafðir voru í hlöðu vegna þrengsla í fjósi, voru

kallaðir hlöðukálfar og þótti ekki virðingarauki að nafninu.

En hlaðan hefur fleiri lokkað en hlöðukálfana, og hefur tilvera

margs Íslendings tendrast þar í mjúkri ilmandi töðu. Óvíða höfðu

ung hjónaleysi betri leynistað einkum er rökkva tók á síðasumars-

kveldi.

Fyrir kom þó að óboðnir gestir vildu slæðast inn, þá ekki síst

unglingar, sem voru að njósna um fyrirtektir þeirra eldri.

Eitt sinn hafði ungt par bælt sig í hlöðu og var allt í besta

velgengni, þegar skyndilega heyrðist ógurlegt öskur við hliðina á

þeim. Hjónaleysunum brá svo, að þau þustu út, en á hæla þeim kom

veturgamall tarfur, sem hafði verið hlöðukálfur í fyrstu og var að

vitja fyrri átthaga. Hefur honum fundist komnir óþarfagestir í ból

sitt og vildi ná sér niður á þeim. Hjónaleysin áttu fótum sínum

fjör að launa heim í bæ svo reiður var tarfurinn, en það sem átti

að fara leynt varð þegar lýðum ljóst og ávöxturinn leit dagsins

ljós níu mánuðum seinna hjá þeim.


Vor

                              Vor úr sinni rekkju rís,

                              reynir að faðma daginn,

                              er sólarljós og silkidís

                              sendir inn í bæinn.

HVOLFT ÚR SKÁLUM

Kona nokkur, sem þótti stirðlynd og í meira lagi stórorð, lenti

eitt sinn, sem oftar í deilum við gestkomandi nágrannakonu sína.

Var hart vegist, og gaf hvorug eftir. Loks gat heimakonan ekki

unað þessu lengur og tók kopp fullan af keitu og hvolfdi yfir gest

sinn. Skyldi þar með þeim.

Bóndi heimakonunnar, sem hafði horft upp á ósköpin, brá ekki

ró sinni, en mælti hægt og stillt. ,,Hún Guðrún mín kann að hella

úr skálum sínum’’. Var það síðan haft að máltæki, að hella úr

skálum reiði sinnar.


Eldiviður

Það var einn vetur, að séra Benedikt á Grenjaðarstað varð eldivið-

arlaus, en honum var vel kunnugt um það, að nafni hans í Múla átti

mikinn eldivið, og afréð að fara þangað til að reyna að fá úrlausn

þessara vandamála. Allir vissu það að séra Benedikt í Múla var nær-

gætinn og hjálpfús maður, en mönnum var líka kunnugt um, að

konan hans leit stundum annan veg á málin. Hún var búkona mikil

og vildi ávallt sjá sér farborða, áður en hún færi að styðja þann næsta.

Það gat því vel farið svo, ef eldiviðarbónin kæmi til hennar kasta,

að hún þættist ekkert mega missa, en reynslan var ein fær um að

leysa úr því spursmáli. Séra Benedikt á Grenjaðarstað fer yfir í Múla,

finnur nafna sinn, tjáir honum vandræði sín og biður hann ásjár.

,,Ekki hefi ég hugmynd um eldivið, það er konan mín, sem ræður

yfir slíkum hlutum,’’ svaraði Benedikt í Múla. ,,Er ekki best að þið

ráðið því sameiginlega?’’ spyr Benedikt á Grenjaðarstað. ,,Nei,’’

svarar hinn, ,,hún veit að þú ert kominn, og þegar hún kemur með

kaffið til okkar, skalt þú biðja hana um eldiviðinn, en ég ætla bara

að hlusta á ykkur, en stattu þig nú vel.’’ Þá kemur frú Arnfríður

með kaffið, en það er kona séra Benedikts í Múla, og biður hún

þá að gera svo vel. Hefur þá eldiviðarleysinginn upp róminn og segir

allt af sínum erindum. Frúin tekur máli hans óstinnt, og veit ekki

til að Múli sé betra brauð en Grenjaðarstaður, og því engar líkur til

að hún hafi eldivið, þegar hans er búinn. En svo lýkur máli þeirra, að

hún leyfir honum, að hann megi fá eitt æki af eldivið í beitarhúsinu

suður frá Múla, en það er nærri Grenjaðarstað. Hún segist skuli

láta beitarhúsamanninn vita það, að hann fengi þetta leyfi, og geti

hann hjálpað vinnumanni hans til að hlaða sleðann. Þá hefir hún

lokið máli sínu og fer jafn rausnarlega og hún kom.

,,Eitt æki af eldivið,’’ segir nú Benedikt á Grenjaðarstað við nafna

sinn, ,,það endist mér í viku, en mig vantar eldivið fyrir átta vikur.’’

,,Það hefir rætst býsna vel úr þessu,’’ segir Benedikt í Múla. ,,Get-

urðu haft átta hesta og átta sleða og tyllt þessu öllu saman, að

hægt sé að sanna, að þú hafir farið með það í einu æki? Þú þarft ekki

endilega að segja, að ég hafi stungið upp á því.’’

Annað kvöld hafði  beitarhúsmaðurinn þá sögu að segja frú Arn-

fríði, að eldiviðarhlaðinn á beitarhúsinu hefði verið tekinn allur

um daginn.

,,Hvað þá! Allur?’’ ,,Já, allur.’’ ,,Ég leyfði honum ekki að taka

nema eitt æki.’’ ,,Já, hann tók það í einu æki, en það var stórt, og

átta hesta hafði hann fyrir því.’’ ,,Heyrir þú Benedikt?’’ Þá svarar

Benedikt: ,,Það er ekkert hægt við það að ráða, fyrst hann tók ekki

nema eitt æki, eins og þú leyfðir honum.’’ En frú Arnfríður á að

hafa sagt: ,,Svona eru þessir b………prestar!’’


Veðrabrigði

                

                         Lundin hryllist. Loftið gránar.

                         Ljósið villist. Sjónin tryllist.

                         Jörðin spillist. Himinn hlánar.

                         Hjarnið gyllist. Tunglið fyllist


Prakkarastrik

Ingólfur afi og María amma bjuggu í Húsabakka frá 1926 og frá 1965

voru þau á veturnar á Selfossi hjá Þuríði dóttur þeirra, afi lést 1968 og

amma lést 1977, var ég mikill prakkari er ég var yngri eins og systkini

mín og fleiri muna eftir, þannig háttaði til að afi og amma höfðu tvö

herbergi inn af eldhúsinu og var gengið úr fremra herberginu inn í hitt,

í innra herberginu var svefnpláss þeirra og smá aðstaða til að hita te, kakó

og sitthvað fleira, og í fremra herberginu var stofan þeirra, á daginn var búið

um rúmið þeirra og var þar mikil dúnsæng sem breitt var yfir teppi, og sátu

 þau svo þar mest allan daginn og prjónuðu þegar ekki var útivinna, ég gerði

mér það oft að leik að koma á mikilli ferð framan úr eldhúsinu inn í gegnum

báðar hurðir og stökkva á milli þeirra gömlu og lenda í dúnsænginni og

lyftust þau þá bæði, voru þau nú ekki alltaf hrifinn af  þessum leik hjá

stráknum, og var amma vön að skamma mig fyrir þetta en afi sagði nú

ekki mikið þó strákurinn væri að leika sér, amma reyndi að sjá við mér

með því að hafa hurðirnar aðeins hallaðar aftur, eitt skipti er ér sá að

hurðirnar voru opnar upp á gátt lét ég mig vaða einu sinni enn og lenti

á milli þeirra með miklum látum og lenti á einhverju og rak upp mikið

vein, hafði ég þá lent á hnykli með nokkrum prjónum í og einn þeirra lent

í afturendanum á mér, stökk ég strax fram úr og hljóp út með það sama,

ekki hafði prjónninn farið djúpt, en aumur var ég í afturendanum nokkra

daga á eftir, skemmst er frá því að segja að ekki urðu hlaupin fleiri í

dúnsængina hjá afa og ömmu, sá ég eftir þetta að betra væri að koma

með minni látum, og fékk strákur þá oft heitt kakó og kringlur.         

Kristín og klerkurinn

Á Sörlastöðum í Fnjóskadal bjuggu við góð efni fyrir móðuharðindin 1784 hjón nokkur, Jón og Kristín; þau áttu börn í ómegð.  Þegar harðærið kom flosnuðu þau upp frá jörðinni og fóru á vergang með börn sín sem nokkur dóu í harðindunum.  Maðurinn dó líka, en konan lifði af á flakkinu.

Skömmu eftir harðindin bar svo til að presturinn mætti Kristínu millum bæja og sagði hún svo frá því: „Þegar ég bjó á Sörlastöðum og hann kom þar til mín sagði hann við mig: „Komið þér sælar heillin góð,” en núna þegar hann reið hjá mér á götunni sagði hann: „Sæl vertu Kristín kelling.””


Heilræði

Það er ljótt að gleðjast af óförum annara, jafnvel andstæðinga sinna. Þess vegna er svo vandasamt að vera sigurvegari. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Óli Helgason
Hallgrímur Óli Helgason

fæddur á Húsavík 24.3.1960, uppalin í Húsabakka í Aðaldal til 1980, síðan átt heima í Bolungarvík að undanskyldum sex mánuðum sem ég átti heima á Húsavík 2003-2004, netfangið mitt er sigurbjorgh@simnet.is og hallioli@visir.is

 

96 dagar til jóla

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband